Mánudans
Ungmennastarf Þjóðdansafélags Reykjavíkur
Þjóðdansafélag Reykjavíkur stendur fyrir virku ungmennasamstarfi þar sem fólki er boðið að koma og kynnast þjóðdönsum og tónlist. Félagið er partur af norrænu þjóðdansa- og tónlistarsamstarfi sem endurspeglast í viðfangsefni hópsins. Dansaðir eru íslenskir og norrænir þjóðdansar. Lögð er áhersla á að nýir og verðandi dansarar læri helstu grunnsporin í dönsunum, ásamt sjálfstæði og öryggi á dansgólfinu.
Íslenskir þjóðdansar eru fjölbreyttir en meðal þess sem farið er yfir á mánudagskvöldum eru:
Söngdansar
Hefur þú heyrt kvæðið af Ólafi liljurós? Hefur þú áhuga á sagnadönsum og vikivakakvæðum? Við dönsum dansa sem hafa þróast á Íslandi í árhundruði við sögulega- og samda tónlist. Við dönsum þjóðdansa sem mótuðust með sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og við dönsum dansa sem rekja má aftur til miðalda.
Gömlu dansarnir
Polkar, skottísar, mazúrkar, rælar, valsar og margt fleira. Síðan um aldamótin 1800 (og fyrr) hafa fjölbreyttir dansar verið dansaðir á Íslandi við hljóðfæraundirleik og söng. Í dag eru þessir dansar kallaðir „gömlu dansarnir“ og finnast þeir á öllum Norðurlöndunum og víðar. Fiðlur, flautur, harmónikkur og fleiri hljóðfæri hafa verið notuð við undirleik í gegnum tíðina og í dag eru öll hljóðfæri velkomin í tónlistarstefnu gömlu dansana. Hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur förum við yfir öll þau tilbrigði við dansana sem hefur verið safnað á Íslandi ásamt tæknilegum æfingum, spunaæfingum og æfingum í sjálfstæði á dansgólfinu.
Hefðardansar
Hvaða dansar voru dansaðir af hirðinni á árum áður? Voru hirðdansar dansaðir á Íslandi? Á mánudögum smökkum við aðeins á sögulegum dönsum. Flestir dansana eru frá Norðurlöndunum og Íslandi þar með talið en við förum einnig víðar.
Norrænir dansar
Norrænir þjóðdansar eru fjölbreyttir og skemmtilegir. Margt sameiginlegt má finna milli Íslands og hinna Norðurlandanna en hvert land á sína sérstæðu. Á þeim Norrænu þjóðdansamótum sem sótt hafa verið af Þjóðdansafélagi Reykjavíkur hefur orðið til samansafn Norrænna dansa sem dansaðir eru þegar dansarar frá öllum Norðurlöndunum mætast. Við munum fara yfir flestar gerðir norrænna dansa á mánudagskvöldum og undirbúa dansarana okkar undir danskvöld í norrænu samhengi.
Ungmennastarf félagsins hófst haustið 2015 eftir vel heppnaða ferð félagsins á norræna þjóðdansamótið Nordlek sem haldið var í Viborg í Danmörku. Síðan þá hefur ungmennum verið boðið að koma og dansa fjölbreytta þjóðdansa öll mánudagskvöld yfir vetrarstarfstíma félagsins. Ungmennahópurinn sem ber heitið „Mánudans“ hefur sótt dansmót reglulega síðan starfið hófst og má þá nefna mót sem haldin hafa verið í Finnlandi, Þýskalandi, Færeyjum, Noregi, Álandseyjum og víðar.
Engrar reynslu er krafist og þátttaka er ókeypis.
Dansað er í sal Þjóðdansafélags Reykjavíkur, Álfabakka 14a, 109 Reykjavík (Mjóddin, við hliðina á Subway) alla mánudaga frá klukkan 20:00-21:30. Húsið opnar 19:30 og lokar 22:00.
Fylgist með heimasíðunni okkar eða á Facebook fyrir fréttir af starfinu og tilkynningar ef danskvöld eða viðburðir falla niður.
Umsjónarmaður er Atli Freyr Hjaltason
Atli Freyr Hjaltason er þjóðfræðingur. Rannsóknarefni hans eru fyrst og fremst á sviði þjóðdansa- og tónlistarrannsókna. Atli Freyr starfar á sviði kennslu og miðlunar en fæst einnig við ýmis menningarstörf, bæði sjálfstætt en einnig hjá hinum ýmsu menningarfélögum.
Atli Freyr er með BA gráðu frá Háskóla Íslands í þjóðfræði og vinnur um þessar mundir að meistaraverkefni sínu við sama skóla. Atli Freyr er leiðbeinandi hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur, stjórnarmaður hjá Vökufélaginu og ÍsFólk, varastjórnarmaður hjá Kvæðamannafélaginu Iðunni, í ritnefnd tímaritsins Hugur og hönd hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og varamaður í skemmtinefnd hjá Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík.
Atli Freyr starfar einnig hjá erlendum samtökum. Hann er stjórnarmaður hjá Nordic Forum for Dance Research (NOFOD), hann er stjórnarmaður hjá Nordisk Förening for Folkdansforskning (NFF) og nefndarmaður í Folkdans- och kulturutskottet hjá Nordlek. Atli Freyr leggur ríka áherslu á rannsóknir og félagsstarf, að skapa rými og vettvang fyrir þjóðdansa og stuðla að samtali milli kynslóða á sviði skemmtanamenningar og menningararfs.