Danskvöld Þjóðdansafélags Reykjavíkur – 12. september

Danskvöld Þjóðdansafélags Reykjavíkur – 12. september

Hefur þú heyrt um vefaradansinn og ræl?

Vefaradansinn má rekja til 19. aldar á Íslandi og var hann dansaður víða um land. Mörg ólík tilbrigði finnast við dansinn og fer það meðal annars eftir landshlutum hvernig dansinn var dansaður. Dansinn er einnig að finna víða í nágrannalöndum okkar. Margir kannast eflaust við erindið:

„Nú vefum við mjúka og dýrindis dúka.

;Vefum mjúka, dýra dúka

rennum skyttunni í skil::“

Fimmtudaginn 12. september mun Atli Freyr Hjaltason annast fimmtudanskvöldið hjá okkur. Vefaradansinn er meðal þess sem Atli Freyr mun kynna á fimmtudag en þá verður einnig farið yfir nokkra dansa úr safni Sigríðar Þ. Valgeirsdóttur og Mínervu Jónsdóttur, Gömlu dansarnir í tvær aldir (1994). Þá má nefna tvo ræla.

Annars vegar „Norskan ræl“ (sem er þó íslenskur dans) sem þekkist víða á Norðurlöndunum sem „schottisch“ eða „reinlender“ og hinsvegar Áframræl frá Barðaströnd.

Atli mun einnig fara yfir sérdansinn Óla skans. Dansinn er hluti samnorræns dansarfs, líkt og svo margir aðrir dansar sem við eigum, en Óli skans er talinn hafa borist til landsins frá Danmörku. Dansinn er af polka gerð og er svokallaður „einnar melódíu dans“, þ.e. það tíðkast aðeins að dansa dansinn við eitt tiltekið lag – ólíkt norska rælnum sem er fjöllaga.

Ljósmynd: Owen Fiene

Einn dans sem tilheyrir ekki íslenskri dansflóru verður einnig tekinn fyrir en það er danski dansinn „Hamborg sekstur“. Á Íslandi flokkast sekstúrar til sérdansa innan gömlu dansana og er hamborg sekstur af polkagerð. Líkt Óla skans er Hamborg sekstur einnar melódíu dans sem er algengur á þjóðdansamótum á Norðurlöndunum og hefur notið mikilla vinsælda meðal dans- og tónlistarfólks á öllum aldri.

Farið verður yfir öll helstu grunnspor og því er engrar reynslu af dansi krafist. Það er ekki gerð krafa um að mæta í pörum og við bjóðum alla sem hafa áhuga á að kynnast íslenskum og norrænum þjóðdönsum, gömlu dönsunum, sögulegum dönsum, þjóðlagatónlist og fleiru í þeim dúr velkomin að koma að dansa með okkur.

Við erum staðsett að Álfabakka 14a, 109 Reykjavík (í Mjódd vinstra megin við Subway). Húsið opnar klukkan 19:45 og dansað er frá 20:00-21:30. Þátttaka í starfi félagsins kostar ekkert.

Ljósmynd: Stefán Ari
Comments are closed.