Mánudans – Þjóðdansar fyrir ungmenni
Ert þú ungmenni á mennta- eða háskólaaldri? Hefur þú áhuga á þjóðdönsum-, búningum, tónlist- og öðru í þeim dúr?
Þjóðdansafélag Reykjavíkur býður ungmennum á aldrinum 15-25 ára að koma og kynnast þjóðdönsum. Dansað er á mánudagskvöldum frá kl. 20:00-21:30 og farið er yfir helstu grunnspor íslenskra og norrænna þjóðdansa.
Íslenskir þjóðdansar eru fjölbreyttir en meðal þess sem farið er yfir á mánudagskvöldum eru:
Söngdansar
Hefur þú heyrt kvæðið af Ólafi liljurós? Hefur þú áhuga á sagnadönsum og vikivakakvæðum? Við dönsum dansa sem hafa þróast á Íslandi í árhundruði við sögulega- og samda tónlist. Við dönsum þjóðdansa sem mótuðust með sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og við dönsum dansa sem rekja má aftur til miðalda.
Gömlu dansarnir
Polkar, skottísar, mazúrkar, rælar, valsar og margt fleira. Síðan um aldamótin 1800 (og fyrr) hafa fjölbreyttir dansar verið dansaðir á Íslandi við hljóðfæraundirleik og söng. Í dag eru þessir dansar kallaðir „gömlu dansarnir“ og finnast þeir á öllum Norðurlöndunum og víðar. Fiðlur, flautur, harmónikkur og fleiri hljóðfæri hafa verið notuð við undirleik í gegnum tíðina og í dag eru öll hljóðfæri velkomin í tónlistarstefnu gömlu dansana. Hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur förum við yfir öll þau tilbrigði við dansana sem hefur verið safnað á Íslandi ásamt tæknilegum æfingum, spunaæfingum og æfingum í sjálfstæði á dansgólfinu.
Sögulegir dansar
Hvaða dansar voru dansaðir af hirðinni á árum áður? Voru hirðdansar dansaðir á Íslandi? Á mánudögum smökkum við aðeins á sögulegum dönsum. Flestir dansana eru frá Norðurlöndunum og Íslandi þar með talið en við förum einnig víðar.
Norrænir dansar
Norrænir þjóðdansar eru fjölbreyttir og skemmtilegir. Margt sameiginlegt má finna milli Íslands og hinna Norðurlandanna en hvert land á sína sérstæðu. Á þeim Norrænu þjóðdansamótum sem sótt hafa verið af Þjóðdansafélagi Reykjavíkur hefur orðið til samansafn Norrænna dansa sem dansaðir eru þegar dansarar frá öllum Norðurlöndunum mætast. Við munum fara yfir flestar gerðir norrænna dansa á mánudagskvöldum og undirbúa dansarana okkar undir danskvöld í norrænu samhengi.
Ungmennastarfið hófst haustið 2015 eftir vel heppnaða ferð félagsins á norræna þjóðdansamótið Nordlek sem haldið var í Viborg í Danmörku. Síðan þá hefur ungmennum verið boðið að koma og dansa fjölbreytta þjóðdansa öll mánudagskvöld yfir vetrarstarfstíma félagsins. Ungmennahópurinn sem ber heitið „Mánudans“ hefur sótt dansmót reglulega síðan starfið hófst og má þá nefna mót sem haldin hafa verið í Finnlandi, Þýskalandi, Færeyjum, Noregi, Álandseyjum og víðar.
Það verður nóg um að vera hjá okkur á mánudagskvöldum í vetur og næsta sumar stendur Þjóðdansafélag Reykjavíkur fyrir þjóðdansamóti á Íslandi og stefnum við að sýningarhóp fyrir mótið þar.
Við tökum fagnandi á móti öllum, hvort sem reynsla í dansi er fyrir hendi eða ekki. Við tökum einnig á móti hljóðfæraleikurum og ef næst að safnast í tónlistarhóp útvegum leiðsögn í íslenskri- og norrænni danstónlist. Umsjónarmaður ungmennahópsins er Atli Freyr Hjaltason.
Við erum staðsett að Álfabakka 14a, 109 Reykjavík (Mjódd við hliðina á Subway). Húsið opnar kl. 19:30 og þátttaka er ókeypis. Öll eru velkomin og ekki hika við að hafa samband við okkur á Facebook ef þú hefur áhuga eða spurningar.
Fylgist með fréttum af starfinu hér eða á Facebooksíðunni okkar.